miðvikudagur, 12. desember 2007

Okey

Við erum búnar að þjást af netleysi undanfarna daga. Netið okkar gaf bara upp öndina og við skiljum hvorki upp né niður. Erum búnar að skríða um alla íbúð í leit af interneti hjá saklausum nágranna og loksins fundum við eitt og það er akkurat semí ofaní eldhúsvaskinum. Þannig að ég er í mjög notalegri stellingu akkurat núna með eldhúskranan í andlitinu!
Annars fer ansi mikið að styttast í annann endann á þessu Danmerkur ævintýri okkar, við erum frekar leiðar yfir því en hlökkum aðsjálfsögðu líka til að koma heim. Það eru nokkrir hlutir sem að ég mun koma til með að sakna sárt við þetta áhyggjulausa líf hér, t.d. að vera bíllaus, það er ótrúlega þægilegt að labba bara allt eða stelast í lestina fyrir lengri ferðir. Svo eru aðrir hlutir sem við munum ekki sakna, t.d. að komast ekki inn til okkar afþví að það eru gaurar að sprauta sig á tröppunum hjá okkur. Annars eru þeir yfirleitt mjög kurteisir og eiga það til að daðra svolítið en við höfum ekki enn slegið til og boðið þeim upp, skil ekkert í okkur einsog þetta eru freistandi tilboð.

Framundan hjá okkur er svo bara áframhaldandi húllumhæ, engin próf hér á bæ! 15.Des verður kveðjukvöldverður hjá íslendingunum sem við erum búnar að kynnast hérna, hann mun fara fram á áströlskum veitingastað og ég er eiginlega meira stressuð en spennt, hef það ekki alveg í mér að borða Skippý. Daginn eftir er ég svo víst að verða 20 ára (finnst ég samt bara vera 10) og þá ætla allir í jólatívólí!! Það verður gott að innsigla 20 árin með góðu gubbi en ég virðist hafa erft sjóveikina úr föðurætt og hætti mér ekki lengur á vegasalt.



Vona að allir hafi það gott
Íris Sif

mánudagur, 3. desember 2007

Biðin er á enda!!

Nýju myndirnar eru komnar á myndasíðuna okkar, undir möppunum "París" og "Jólaföndur/Landsleikur/Spleen tónleikar".
Og nú bjóðum við uppá þá nýjung að skrifa skilaboð við myndirnar en það er gert með því að smella á "add your comment" fyrir neðan hverja mynd fyrir sig. Um að gera að nýta sér þetta!

sunnudagur, 2. desember 2007

Jóla Jóla Jóla

Jæja ákvað að henda inn smá færslu á meðan ég bíð eftir matnum sem Stella er að elda. Við erum að eiga mjög rómantíska kvöldstund saman með jólalög og allann pakkann... Ég er búið að eyða síðustu 5 mínútum í að reyna að kveikja á kertum en ég hef aldrei getað kveikt á kveikjara á ævinni og gafst að lokum upp og sit eftir með sárt enni og sáran þumalputta.
Jólaandinn er að hellast yfir okkur þessa dagana. Í síðustu viku vorum við með smá jólaföndur hérna heima, bökuðum smákökur og höfðum það gott. Í dag skreið ég svo út á Ráðhústorg með tvær mandarínur í nesti og horfði á þegar kveikt var á jólatrénu, er ekki frá því að það hafi bara myndast nokkur tár, maður er svo mikið jólabarn. Næstu helgi kemur svo Kóka Kóla lestin hér í borg og mikill spenningur í fólki... eða kannski bara mér... En jæja maturinn er kominn á borðið svo ég verð að rjúka..
Við erum að vinna í því að setja Parísar, jólaföndurs og landsleiksmyndir á myndasíðuna okkar, látum vita þegar það kemur :)

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Politik og glens

Það er ansi fámennt í skólanum í dag vegna þess að í gær gekk Daninn ad kjørkassanum. Hvort það er svona fámennt vegna mikils húllumhæs í gær eða vegna þess ad fólk hafi drekkt ser i kanalnum veit ég ekki enda botna ég hvorki upp né niður í danskri pólitík. Þó høfum við þurft að sitja undir nokkrum pólitískum fyrirlestrum undanfarið hér í skólanum sem er frekar fáránlegt þar sem stærsti hluti skólans hefur ekki kosningarétt í Danmørku og hefur mjøg takmarkaðan pólitískan orðaforða.
Kostningabaráttan hefur ekki farið framhjá okkur, aðallega vegna þess hversu svakalega misheppnuð hún er! Hér hanga hálfniðurringd og útkrotuð pappaskilti útum allann bæ. Fyrst hélt ég að það væri eitthvað átak gegn mannsali í gangi því eimdarsvipurinn a frambjóðendum er þvílíkur. Þetta er mjøg hlæilegt miða við glansauglýsingarnar heima, ekki það að ég sé hrifin af því hversu fáránlega háum fjárhæðum er eytt í auglýsingar heima. Hér er náð til fólks með auglýsingum útá gøtu en heima fer fúlgan í að ná til þjóðarinnar fyrir framan sjónvarpið og í bílunum sínum.
En nóg um það...

Arna og Snæfríður kíktu aðeins á okkur um helgina sem var rigtig sjovt! Arna var dugleg að taka video og hér eru tvø nokkurveginn byrtingarhæf:

Fløskustútur á Cafe Norden:


Ég og Arna í hjólataxa:

sunnudagur, 28. október 2007

Þetta verður úr samhengi

Í fréttum er þetta helst að við erum búnar að þróa hina fullkomnu uppvöskunar-aðferð!
Stellu misbauð gjörsamlega hvernig ég vaska upp og það fór fyrir brjóstið á mér að sjá hana vaska upp. Þannig að við ákváðum að mixa aðferðirnar okkar saman. Við erum svo þroskaðar og duglegar að koma til móts við þarfir hvor annarrar enda gengur sambúðin einsog í sögu.

Ég er greinilega ekki ennþá búin að læra að vera á varðbergi gagnvart íslendingum hérna í Kaupmannahöfn. Ég var vægast sagt stórorð um ágæti ungs manns á kaffihúsi um helgina, sagði hluti einsog "Vá hvað þetta er heitur pabbi" og "Eruði að grínast hvað hann er sætur, hann var það fyrsta sem ég sá þegar ég vaknaði og ég hélt að mig væri ennþá að dreyma" (ég dottaði aðeins á kaffihúsinu)... Svo hringir síminn hjá kauða og hann svarar á íslensku!! Ég reyni að hugga mig við það að ég var allavegana langtlangt frá því að vera að segja eitthvað ljótt.

Við Hulda skólafélagi skelltum okkur í messu áðan. Við fórum nefninlega og skoðuðum Vor Frue Kirke með hinum frábæra Kaupamannahafnaráfanga á föstudaginn og kolféllum fyrir fegurð kirkjunnar og þá sérstaklega risavöxnu orgelinu. Messan var alveg ágæt, presturinn var frekar auðskyljanlegur og svo í endann fengum við sko aldeilis eitthvað fyrir okkar snúð. Þar sem við sátum algjörlega afslappaðar og andinn sveif yfir ..uu..gólfum... þá dúndraði orgelleikarinn mjög skyndilega á orgelið og missti sig í einhverju hryllingsmyndaglamri, sem að var geðveikt!

Fann þessa mynd á netinu en hún var tekin þegar verið var að minnast brunans mikla í Kaupmannahöfn.... flottflott

Íris kveður í bili :)

fimmtudagur, 25. október 2007

Smá viðbót..

..við síðasta blogg...
Fann þetta líka frábæra vídjó:

Kannast einhver við sjúklega hressu gellurnar í vinstra horninu hahaha

þriðjudagur, 23. október 2007

"Pant ekki blogga næst"...

...var það fyrsta sem Stella sagði við mig þegar ég kom heim.
Þannig að hér fáiði (engann) smá pistil um Íslands-ferð mína en hvað Stella gerði á meðan verður bara leyndó þangað til dömunni hentar að blogga.

Jæja hvar skal byrja, ég átti svo yndisslega-þéttskipulagða daga í faðmi fjölskyldu og vina að maður verður bara háfleygur, HÁFLEYGUR! Ég upplifði svosem enga tónlistalega sigra á Airwaves en asskoti skemmti ég mér vel! Það sem stendur hæst uppúr er án efa partýið í Bláa Lóninu. Ég ætla ekki einusinni að reyna að lísa því hvað þetta var gaman, skoðiði bara þetta myndbrot:


dododoo, þetta er í eina en vonandi ekki síðasta skipti sem að ég sé hálfnakið fólk "crowd surfa".

En það sem stóð uppúr af tónleikum voru Hjaltalín (off- og "on" venue), For a minor reflection, Boys in a band (off-venue, sögðu svo orðrétt sömu brandarana um kvöldið), Grizzly Bear, Thundercats, Bloodgroup, Hairdoctor, Reykjavík!, Of montreal, Bloc Party, Skakkamanage (off-venue-x2) og Coral.

Verðlaunin fyrir undarlegustu samskiptin fara til gæjans sem kom til mín á Bloc Party og spurði mig uppá ensku hvaða dýr ég mundi velja til að stækka eða smækka í stærð hunds. Eftir að hann var búinn að endurtaka spurninguna 4 sinnum afþví að ég skildi engann veginn hvað hann var að meina svaraði ég Dinosaur og hann virtist mjög ánægður með það svar, þar sem hann elti okkur það sem eftir var af tónlekunum. krípí.
Önnur samskiptaverðlaun fara svo til vandræðalegasta myspace-móments míns hingað til en þau verða ekki tíunduð hér þar sem ég er að safna þeim í bók sem ég hyggst gefa út ásamt dónasögum af Hrafnistu.

Á sunnudagskvöldið fór ég svo með móður minni á Hamskiptin eftir Kafka í uppsetningu Vesturports. Ég er hætt að fara í leikhús nema til að sjá barnaleikrit eða Vesturport, þau kunna þetta! Ég get óhikað mælt með þessu leikriti fyrir alla, það er mikil veisla fyrir augað og leyfi mér að ganga svo langt að segja að Gísli Örn vinni leiksigur, já leiksigur segi ég!

Lag ferðarinnar: Dancing Behind My Eyelids - Múm

P.s. Var að elda pasta sem við keyptum sama dag og við fluttum inn (hehemm), ég kýs að kalla réttinn "Multipastameðnóguasskotimiklumosti3000", maður á þetta til ;)

laugardagur, 13. október 2007

Hvernig skilja á eftir sig skilaboð

Við höfum eitthvað heyrt af því að einhverjir hafi lent í ógöngum þegar kemur að því að skilja eftir skilboð.
Okkur grunar að vandamálið sé fólgið í því að merkja verður við "Other" eða "anonymous" fyrir neðan rammann sem skilaboðin eru skrifuð í, áður en valið er að byrta skilaboðin. Á myndinni hér fyrir neðan hefur t.d. verið merkt við "anonymous":

Photo Sharing and Video Hosting at Photobucket

Vonum að þetta komi að einhverju gagni!

Annars erum við gjörsamlega búnar á því eftir keyrslu síðustu daga. Miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur fóru í undirbúning Menningarnætur sem var á föstudagskvöldið. Einsog allir vita segja myndir meira en milljón orð þannig að við bjóðum ykkur velkomin á myndasíðuna okkar: www.fotki.com/islpiger
-Þar getiði séð myndir frá undirbúningnum sem og kvöldinu sjálfu

þriðjudagur, 9. október 2007

Borups Højskole

Sælir hálsar
Ég fann þetta líka rosalega dramatíska kynningarmyndband fyrir skólann okkar.
Þarna getiði séð hann að innan og utan og flesta kennarana í "aksjón" sem og einn íslending að kasta sér yfir borð.
Hvet ykkur líka til að ímynda ykkur Stellu í dansatriðunum...



Og þetta eru engar ýkjur, hér eru allir gullfallegir, alltaf að knúsast og sólin skín látlaust.

fimmtudagur, 4. október 2007

Jæja tími á (engar) smá fréttir!

Vorum að skríða heim eftir 13 klukkustunda skóladag, allir á fullu að klára verkefnin sín því að skólinn er víst frekar stórt númer á Menningarnótt hérna 12.október. Þá verður opið hús, tónleikar, dans, leikrit, kór og verkefnin okkar til sýnis. Við erum búnar að eyða síðustu tveim fimmtudögum í að framkalla. Það hefur verið frekar glatt á hjalla þar sem íslendingar virðast eiga það sameiginlegt að vera alltaf á síðustu stundu. Ég er svo slæmur bloggari að ég er að hugsa um að leyfa ykkur bara að skyggnast inní týpískan skóladag hjá mér:

Ég byrjaði daginn á því að steinsofa yfir sirka 3 arkítekta myndir. Svo fórum við að skoða frábæra sýningu um uppbyggingu Kaupmannahafnar, þar var einnig að finna mest djúsí bókabúð sem ég hef komið í, þar sem var bara að finna arkítekta- og hönnurnarbækur. Mæli með henni fyrir öll nörd. Þar tókst mér að skutla mér þvert yfir kort af Kaupmannahöfn þegar ég var beðin um að benda á hvar ég ætti heima. Svo röltum við til baka og stoppuðum öðru hvoru til að góna upp hinar og þessar byggingar (ég er orðin mjög liðug í hálsinum eftir þenann kúrs). Í hádegishléinu átti ég svo eitt af fjölmörgum samtölum við umsjónakennarann minn sem ég hef ekki hugmynd um útá hvað gekk. Mér er lífsins ómögulegt að skilja manninn, ég segi alltaf bara já þangað til hann verður skrítinn á svipinn þá fer ég að segja nei... Eftir hádegi var svo komið að því að velja fög fyrir næsta period, ég valdi: Digital ljósmyndun, Filmmusik, Multimedia (búa til teiknimyndir og allskonar), Kór (haha) og Köbenhavn (sem gengur einmitt útá að rölta um og góna upp bygginar, uppáhaldið mitt). Eftir skóla fórum við svo að framkalla, sem gékk stórslysalaust fyrir sig fyrir utan smá káf í myrkraherberginu. Stella var að reyna að rétta mér skæri og ég greip bara um brjóstið á henni, dúllur.

Já þar hafiði það, annars er það í STÓR fréttum að ég er að koma heim á Airwaves 16.okt. Gat bara ekki hugsað mér að sleppa þessu. En lélegasti bloggari heims ætlar að kveðja í bili og hér er smá myndband af umsjónakennaranum mínum óskiljanlega:



Kveðja Íris Sif

Lag dagsins: Lullaby - The Cure

fimmtudagur, 27. september 2007

Ingvar E.

Erum búnar að taka Ingvar E. Sigurðsson maraþon síðustu tvo daga og horfa á þrjár myndir með honum (Englar alheimsins, Foreldrar og Mýrin). Hann kann þetta. Ástæðan er reyndar ekki að við elskum hann svona mikið heldur hefur þetta í rauninni verið hálfgerð tilviljun. Í skólanum hjá okkur settu Hulda og Björk íslenskan kvikmyndaklúbb á laggirnar og hafa nú fengið að sýna tvær myndir. Sódómu og í gær Englana.
Í dag fórum við svo á Europian filmfestival (evrópska kvikmyndahátíð á hinu ylhýra) og afþví okkur langaði svo bæði að sjá Foreldra og Mýrina ákváðum við bara að skella okkur á þær báðar...þó þær væru í röð. Sætin voru hin bestu svo við höfðum ekki yfir neinu að kvarta. Auk þess komu leikstjórarnir og töluðu aðeins um myndirnar sínar og svöruðu spurningum úr sal.
Þeir Ragnar Bragason og Baltasar Kormákur höfðu algjörlega ólíka stíla á öllum sviðum nánast. Ragnar talaði með ótrúlega íslenskum hreim og bar fram R-ið eins og sannur Íslendingur á meðan Balti var aðeins meira smooth og náði að hemja err-ið í framburði en það var eins og öll málfræði hefði fokið út um gluggann. Við líka skemmtum okkur mikið yfir því þegar hann sagði að Mugison (sem sá um tónlistina í Mýrinni) hefði einmitt verið að spila hérna á Hróarskeld í fyrra og að his wives borðuðu sviðakjamma.
Svona smáatriði gefa lífinu lit;)

Leikari dagsins í dag og í gær – Ingvar E. Sigurðsson.

laugardagur, 22. september 2007

Smá svona öpdeit

Jæja, það er ljúfur laugardagur, gott veður og svona en við sitjum bara inni að horfa á Mtv spila gamla hittara. Horfðum líka á Tomma og Jenna í morgun sem Íris átti reyndar erfitt með því það fer svo fyrir brjóstið á henni hvað allir eru alltaf vondir við Tomma.
Við kíktum aðeins út á lífið í gær í tilefni þess að Elsa Fanney átti afmæli. Fórum á stað sem heitir Vega og virðist vera bara hinn fínasti staður. Við vorum svo latar í gærkvöldi að við nenntum ekki að fá okkur að borða svo við ákváðum á leiðinni á Vega að stoppa í seven/eleven og fá okkur að borða. Þar sem við erum jú alltaf að æfa okkur í dönskunni pöntuðum við á dönsku. Ótrúlegt en satt skildi hún okkar bjöguðu dönsku og sagði ekki "hvad" eins og allir segja þegar ég reyni að tala dönsku við þá. Svo spurði hún okkur hvort við værum Íslendingar sem við svöruðum náttúrulega játandi. Þá sagði hún "ég elska ykkur" okkur til mikillar ánægju, gleði og undrunar. En þessi gleði stóð stutt yfir því leið og við komum út sagði Elsa okkur að hún hefði verið að segja að við íslendingarnir værum alls staðar. Þvílík vonbrigði. Við sem vorum svo sáttar með að fólk elskaði okkur. Danskan er semsagt ekki aleg komin hjá okkur, en svo er líka bara gaman að halda að e-r ókunnugur elski okkur.
Við héldum svo bara áfram að skemmta okkur fram eftir nóttu.


Vinalegi nágranninn okkar virðist vera komin heim eftir e-a fjarveru og nú með nýja handavinnu. Eldhús borðið hans er nú þakið grænu gervigrasi og hann er stöðugt með gesti að spila e-ð nördaspil. Við höfum ekki jafn gaman af þessu áhugamáli og því síðasta. Hann á reyndar kannski ágætlega sæta vini, sem betur fyrir hann. Annars hefðum við farið að senda honum ýmsan varning í pósti sem hefðu komið gamla áhugamálinu við.

P.s. Myndasíðan okkar er full en um mánðarmótin er von á fullt af nýjum myndum, þannig að bíðið spennt!!!

Keypti hlutur dagsins: Uppþvottahanskar (loooooksins)
Afþreying dagsins: Top 50 MTV Classics (nostalgíanostalgía)

fimmtudagur, 13. september 2007

Stella söngfugl

Ég vildi óska að ég væri með einhverja maskínu hérna til að taka upp video.
Kórinn í skólanum hefur umturnað Stellu, hún syngur stöðugt 24/7 og það stöðvar hana ekkert þó hún kunni ekki textann.
Rétt í þessu glumdi um alla blokkina ".... ..... *muldurmuldur*..... I USED TO DANCE WITH MY DADDY OOOHHH"

Og nú er hún farin að syngja á dönsku ...hjálp!

mánudagur, 10. september 2007

Malmö bay

Fyrir 146 dkk og 40 mínútna lestarferð vorum við komnar í annað land sem innihélt engar almennilega súkkulaðikökur en mun sætari stráka en Danmörk.
Myndir komnar á myndasíðuna okkar:)

www.fotki.com/islpiger

laugardagur, 8. september 2007

Fyrsta blogg

Hej
Ákváðum að stofna bara blogg afþví að við erum svo slappar á myndasíðunni og höfum frá svo mörgu að segja.
Slóðin er til heiðurs nágranna okkar en hann hefur okkur til mikillar skemtunar verið iðinni við handavinnuna.

Við vöknuðum frekar ferskar í morgun og nokkuð snemma miðað að það sé helgi. En þar sem við erum alltaf frekar eirðarlausar yfir helgarnar og vitum aldrei hvað við eigum að gera af okkur ákváðum við að kíkja yfir í Christianiu og njóta dagsins þar. Við höfum farið þangað einu sinni áður síðan við komum hingað í ágúst. Þarna er ávallt afslöppuð stemming og þægilegt að vera. Við byrjuðum á því að labba aðeins um en fundum okkur á endanum sæti og virtum fyrir okkur fólkið í kringum okkur. Þarna horfðum við á 17 ára “barn” selja vinum sínum hass (fyndna var að hann var í bol sem á stóð “pussy magnet”. Hot eða hvað?) og túristahópar sem fara í skipulagða göngu með guide og hóparnir sem voru nokkrir, samanstóðu af 50+ ára fólki. Hefði verið aðeins skárra veður hefðum við getað verið þarna í allan dag og horft á mannflóruna sem sat þarna og reykti hass.

Annars ætlum við til Malmö á morgun með nokkrum Íslendingum á tónleika með Jóhanni Jóhannssyni en hann er frændi hennar Eddu sem er með okkur í skólanum.
Danir geta verið vitleysingar og hafa allt lokað á sunnudögum, við erum því að vona að Svíar séu ekki jafnmiklir kjánar en ef allt bregst er Íris búin að finna Ikea búð sem á að vera opin.

Við ætlum að segja þetta gott í bili og horfa á landsleikinn Ísland – Spánn
Kærlig hilsen til allra

Lag dagsins: 23 – Blonde Redhead